Bandaríski flugherinn gerði loftárásir á Mogadishu, höfuðborg Sómalíu í nótt, skotmarkið voru meintar bækistöðvar al-Qaeda hryðjuverkamanna. Bandaríkjamenn telja að meðlimir al-Qaeda sem beri ábyrgð á árás á sendiráð þeirra í Kenýa og Tansaníu 1998 og hafi verið í felum í Sómalíu síðan þá.
Samkvæmt fréttavef BBC hafa upplýsingafulltrúar hersins ekki gefið upp hvort árásirnar hafi haft tilætlaðan árangur en mannfall er sagt mikið.
Bandaríski herinn sendi flugmóðurskipið USS Eisenhower til liðs við þrjú önnur herskip sem vakta nú strendur jafnt sem lofthelgi Sómalíu. Skipin búa yfir fjölmörgum herþotum sem til þessa hafa þjónað í Afganistan.
„Við verðum þarna eins lengi og okkar er þörf,” sagði talsmaður hersins í samtali við AP fréttastofuna.
Herskipin USS Bunker Hill, USS Anzio og USS Ashland hafa undanfarið stöðvað skip sem sigla frá Sómalíu og leitað að hryðjuverkamönnum og al-Qaida liðum í þeim en engan fundið.