Argentína vill fá Isabel Perón framselda

Isabel Perón.
Isabel Perón. Reuters

Argentínskur dómari gaf í dag út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Isabel Perón, fyrrum forseta Argentínu, en hún hefur verið ákærð fyrir að bera ábyrgð á mannránum og mannshvörfum þegar hún var forseti Argentínu á árunum 1974-1976.

Handtökuskipunin var send til alþjóðalögreglunnar Interpol, sem hefur komið henni á framfæri við spænsk stjórnvöld þar sem Perón, sem er 75 ára, dvelur.

Málið snýst m.a. um andófsmanninn Hector Fagetti Gallego, sem var handtekinn árið 1976 og hvarf í kjölfarið. Mánuði síðar rændi her Argentínu völdum og rak Isabel Perón úr embætti forseta, sem hún tók við þegar Juan Perón, eiginmaður hennar, lést árið 1974. Juan var þrisvar forseti Argentínu á árunum 1946 til 1976.

Meðan Isabel var við völd ríkti hálfgert stjórnleysi í Argentínu þar sem herskáir vopnaðir flokkar á vinstri og hægri væng stjórnmála börðust og her landsins blandaði sér í átökin. Eftir að Isabel var steypt af stóli var herforingjastjórn við völd til ársins 1983. Telja mannréttindasamtök að 30 þúsund manns hafi látið lífið eða horfið á valdatíma hershöfðingjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert