Hosni Mubarak Egyptalandaforseti varaði Írana við því í dag að halda sig frá Írak. „Íranar eru að reyna að afla sér stuðnings í Írak og á svæðinu í heild og ég segi við alla aðila: „Snertið ekki Írak,” segir Mubarak í viðtali sem birt er í egypska vikublaðinu al-Osboa í dag.
„Írakar hafa möguleika á að vera áfram sameinaðir hætti utanaðkomandi aðilar bæði í heimshlutanum og annars staðar í heiminum að blanda sér í málefni þeirra,” segir forsetinn í viðtalinu. „Haldi núverandi ástand hins vegar áfram er hætta á því að Írak klofni upp í stríðandi ríki. Ástandið í Írak er sorglegt og það fer versnandi, klofningurinn er að aukast og Írakar eru að upplifa einhvers konar borgarastyrjöld.”
Þá sagði hann hugsanlegan klofning Íraks vera ógn við samstöðu araba og heimsfriðinn. „Þeir sem vilja leggja heimshlutann í rúst verða að skilja það að hættan á klofningi mun hafa neikvæðar afleiðingar fyrir allan heiminn,” sagði hann og bætti því við að stríð íslamskra heittrúarmanna og veraldlega þenkjandi múslíma ógni olíubirgðum heimsins.