Isabel Perón látin laus með skilyrðum

Maria Estela Martínez de Perón, betur þekkt sem Isabel Perón, …
Maria Estela Martínez de Perón, betur þekkt sem Isabel Perón, kemur í dómhúsið í Madrid í kvöld. Reuters

Isabel Perón, fyrrum forseti Argentínu og ekkja Juan Domingo Peróns, sem einnig var forseti Argentínu, var látin laus í Madrid á Spáni í kvöld en hæun var handtekin á heimili sínu í borginni í dag. Argentínsk stjórnvöld höfðu áður gefið út alþjóðlega handtökuskipun á hendur Perón en hún hefur verið ákærð fyrir að bera ábyrgð á mannránum og mannshvörfum þegar hún var forseti Argentínu á árunum 1974-1976.

Argentínustjórn hefur 40 daga til að leggja fram formlega framsalskröfu og var Perón, sem er 75 ára gömul, látin laus með skilyrðum. Þarf Perón á þeim tíma að mæta á lögreglustöð á 15 daga fresti á meðan framsalskröfufrestinum stendur, að því er kemur fram í tilkynningu, sem dreift var til blaðamanna utan við dómhúsið.

Argentínustjórn gaf handtökuskipunina út vegna rannsóknar á hvarfi andófsmannsins Hectors Fagetti Gallego, sem var handtekinn í Argentínu og hvarf í kjölfarið árið 1976, þegar Isabel Perón var enn forseti. Mánuði síðar rændi her Argentínu völdum og rak Isabel úr embætti forseta, sem hún tók við þegar Juan Perón, eiginmaður hennar, lést árið 1974. Juan var þrisvar forseti Argentínu á árunum 1946 til 1976.

Meðan Isabel var við völd ríkti hálfgert stjórnleysi í Argentínu þar sem herskáir vopnaðir flokkar á vinstri og hægri væng stjórnmála börðust og her landsins blandaði sér í átökin. Eftir að Isabel var steypt af stóli var herforingjastjórn við völd til ársins 1983. Telja mannréttindasamtök að 30 þúsund manns hafi látið lífið eða horfið á valdatíma hershöfðingjanna. Látið hefur verið að því liggja, að þessar hreinsanir hafi byrjað á valdatíma Isabel Perón og hún hafi í raun lagt blessun sína yfir þær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert