Múslímaklerkur segir brjálæðislegt frelsi ríkja í Ástralíu

Ástralski múslímaklerkurinn Taj Aldin al-Hilali hefur enn á ný reitt Ástrala til reiði með ummælum sínum en Hilali sagði nýlega í sjónvarpsviðtali sem birt var í Egyptalandi að „áströlsk lagasetning einkennist af brjálæðislegu frelsi". Þá sagði hann múslíma eiga meira tilkall til landsins en hvíta íbúa þess þar sem þeir hafi komið þangað af fúsum og frjálsum vilja og sjálfir greitt fyrir farmiða sína þangað. Þetta kemur fram á fréttavef Yahoo.

John Howard, forsætisráðherra Ástralíu gerði góðlátlegt grín að ummælunum er þau voru borin undir hann og sagði flesta Ástrala vera stolta af glæpsamlegri fortíð sinni. Aðrir ráðherrar hafa ekki tekið ummælunum jafn létt og hefur honum m.e verið bentá að hann geti verið áfram í Egyptalandi sé hann jafn ósáttur við Ástralíu og hann láti í verðri vaka.

Klerkurinn sagði einnig í viðtalinu að Vesturlandabúar væru heimsins mestu lygarar og þá sérstaklega Englendingar. Hilali hefur áður vakið reiði með ummælum sínum en á síðasta ári sagði hann m.a. að ástralskar konur væru „óhulið kjöt sem byðu upp á að á þær væri ráðist.”

Kuranda Seyit, talsmaður samtaka ástralskra múslíma, segist sleginn yfir ummælum klerksins. „Ég vil taka það fram að það er ekkert til í ummælunum um að múslímar eigi meiri kröfu til landsins en afkomendur þeirra sem komu þangað á undan þeim,” sagði hann. „Við erum slegin yfir ummælunum. Samfélag múslíma óskar þess eins að fá að vera hluti af þessari þjóð.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka