George W. Bush Bandaríkjaforseti varaði í dag demókrata við því að draga úr fjárveitingum til hernaðarins í Írak og sagði að þeir sem gagnrýni nýja stefnu hans í Írak verði að leggja eitthvað annað til í staðinn, vilji þeir að málflutningur þeirra sé ábyrgur.
"Þeim sem neita að gefa færi á að þessi áætlun gangi upp ber skylda til að leggja til í staðinn eitthvað annað sem meiri möguleikar eru á að gangi upp. Að andmæla öllu án þess að leggja nokkuð til í staðinn er óábyrgt," sagði Bush í vikulegu útvarpsávarpi sínu.
Bush sagði að hin nýja áætlun sín myndi að miklu leyti skera úr um hvort herförin í Írak skili árangri.