Mikill víkingafjársjóður fundinn í Noregi

Nútímavíkingar.
Nútímavíkingar.

Fornleifafræðingar hafa gert mikla uppgötvun í Rogalandi, þar sem fundist hafa víkingagrafir frá níundu öld, fullar af gulli og gersemum. Í einni gröfinni, þar sem kona hvíli, fundu fornleifafræðingarnir skartgripi, fjölmargar perlur, hníf og skæri og fleiri heimilisverkfæri.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten og hefur eftir Stavanger Aftenblad.

„Stærð, gerð og hönnun skartgripanna er mjög óvenjuleg,“ er haft eftir fornleifafræðingnum Olle Hemdorff. „Hún tók margt með sér.“

Fornleifafræðingarnir sem uppgötvuðu gröfina starfa á vegum fornleifasafnsins í Stavangri. Þrjár grafir hafa þegar fundist, og hafa þær ekki allar verið kannaðar enn. Þá telja fornleifafræðingarnir að fleiri grafir kunni að vera í grenndinni.

Gröfin sem könnuð hefur verið fannst rétt eftir áramótin, og í henni hafa komið í ljós rúmlega fimmtíu hlutir, þ.á m. stór bronsnæla sem í eru grafnar myndir af bjarnarhöfði og öndum.

Hemdorff sagði að talið væri að í gröfunum hvíldi fjölskylda sem verið hefði uppi á níundu öld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert