Óveður í Noregi og Svíþjóð; vindur nær fellibylsstyrk

Í Gautaborg.
Í Gautaborg. mbl.is/Ómar

Mikið óveður hefur herjað á Suður-Noreg og Vestur-Svíþjóð í nótt og morgun, og hefur vindur náð fellibylsstyrk við strendur. Ekki hefur verið greint frá manntjóni af völdum veðursins, en fréttavefur sænska blaðsins Dagens Nyheter segir að tæplega 70 þúsund heimili í Vestur-Svíþjóð séu nú rafmagnslaus.

Sænska veðurstofan varar við því að vindur kunni að ná fellibylsstyrk á Skáni og víðar seinna í dag. Rafmagnsleysið í Svíþjóð stafar af því, að tré hafa fallið og rofið rafmagnslínur. Af sömu ástæðum er símasambandslaust við nokkur þúsund heimili.

Björgunarsveitir í Gautaborg hafa verið í viðbragðsstöðu í morgun og fólk beðið að vera ekki á ferli utandyra þar sem vindur kann að ná fellibylsstyrk, eða um 33 metrum á sekúndu, í borginni í dag.

Svipaða sögu segja norskir veðurfræðingar við fréttavef Aftenposten, í Stavangri og Bergen hefur mikið óveður geisað og náð fellibylsstyrk. Líkt og í Svíþjóð hefur veðrið verið verst við ströndina, en í nótt náði það þó inn á Harðangursfjörð.

Líkt og í Svíþjóð hafa tré fallið í Noregi og hefur það valdið samgöngutruflunum. Lestarferðir milli Óslóar og Gautaborgar liggja niðri.

Óttast var að veðrið myndi valda usla á Norður-Jótlandi í Danmörku, en samkvæmt fréttavef Jótlandspóstsins í morgun virðist það hafa sloppið til.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert