Zalmay Khalilzad, sendiherra Bandaríkjanna í Írak, segir Bandaríkjastjórn vera að búa sig í að leggja til atlögu við útsendara Írana og Sýrlendinga í Írak. „Við erum að búa okkur í að leggja til atlögu við samskiptanet þeirra í Írak,” sagði hann á blaðamannafundi í dag. Þá sagði hann tímamótastund vera runna upp í Írak. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.
Þá sagði Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, í dag að auknum umsvifum Bandaríkjahers á Persaflóasvæðinu væri ætlað að draga úr neikvæðri hegðun Írana og sanna fyrir þeim að athygli Bandaríkjamanna sé ekki öll á Írak. Hann sagði jafnframt að þetta væri ekki rétti tímann til samningaviðræðna við Írana en að þær komi til greina í ótilgreindri framtíð.
„Íranar standa greinilega í þeirri meiningu að við eigum fullt í fangi með Írak og að það veiti þeim svigrúm og að þeir geti beitt okkur ýmiskonar þrýstingi,” sagði hann. „Þeir eru ekki að gera neitt uppbyggilegt í Írak á þessu stigi málsins. Þá sagðist hann líta svo á að Íranar kæmu fram á mjög neikvæðan hátt en að þegar þeir verði reiðubúnir til að taka þátt í uppbyggingu á svæðinu geti hann vel séð fyrir sér samstarf við þá.