Hálfbróðir Saddams Husseins og fyrrum yfirmaður Byltingardómstóls Íraks hafa verið hengdir. Frá þessu greindi saksóknarinn Munqith al-Faroon. Aftökurnar áttu sér stað fyrir dögun í dag að hans sögn.
Barzan al-Tikriti og Awad Hamad al-Bandar voru dæmdir sekir um aðild sína að morðum á 148 sjítum árið 1982, eftir að tilraun til að ráða Saddam Hussein mistókst í Dujail.
Hussein var hengdur þann 30. desember sl. eftir að hafa verið fundinn sekur um sama glæp.
Barzan al-Tikriti var hálfbróðir Hussein og starfaði sem yfirmaður írösku leynilögreglunnar.
Hann var háttsettur meðlimur Íraksstjórnar þegar Bandaríkin gerðu innrás í landið árið 2003 og hann var einn af þeim lykilmönnum sem handsama átti.
Awad Hamad al-Bandar var yfirdómari Byltingardómstólsins. Í ákærunni gagnvart honum sagði m.a. að hann hafi staðið fyrir sýndarréttarhöldum sem leiddu oftar en ekki til þess að fólk var tekið af lífi.