Kona lést af völdum vatnsdrykkju

Kona lést í Kalíforníu í síðustu viku eftir að hafa tekið þátt í vatnsdrykkjukeppni á vegum útvarpsstöðvar þar sem verðlaunin voru Nintendo Wii leikjatölva. Að sögn réttarlækna lést konan úr svonefndri vatnseitrun veldur því, að jafnvægi raflausna í líkamanum raskast vegna of mikillar vatnsneyslu. Getur þetta valdið bólgum, flogum, dái eða dauða.

Konan hét Jennifer Strange, 28 ára þriggja barna móðir. Hún lést á föstudag eftir að hafa drukkið rúma 2 lítra af vatni í keppni, sem útvarpsstöðin KDND 107,9 í Sacramento skipulagði.

Samkvæmt reglum keppninnar fengu þátttakendur átta 225 millilítra flöskur af vatni og áttu að drekka úr þeim á 15 mínútna fresti. Sá sigraði sem tókst að drekka mest vatn án þess að kasta af sér þvagi.

Að sögn fjölmiðla kvartaði Strange yfir höfuðverk nokkrum klukkustundum eftir að keppnina og fór snemma heim. Hún fannst síðar látin á heimili sínu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert