42 hafa látið lífið í Bandaríkjunum vegna kulda og snjókomu undanfarna daga og vetraríkið nær frá New Mexico til Maine. Yfir 500 þúsund heimili í Bandaríkjunum eru án rafmagns samkvæmt veðurmiðstöð Bandaríkjanna. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, lýsti yfir neyðarástandi í hluta Oklahomaríkis í gær.
Verst er ástandið í Oklahoma og er ekki reiknað með að rafmagn komist á fyrr en í lok vikunnar. Hjálparsveitir hafa dreift rafölum og flöskuvatni í Oklahoma en þar hafa verið tilkynnt um 300 umferðaróhöpp í gær þar sem 14 manns létust.
Í Missouri létust átta í umferðaróhöppum og einn lést af kolmónoxíðseitrun sem er algengt í rafmagnsleysi, því þá fer fólk að kynda olíuofna á heimilum sínum.