54 látnir í vonskuveðri í Bandaríkjunum

Frá McAlester í Oklahoma
Frá McAlester í Oklahoma AP

Hundruð manna hafast við í neyðarskýlum og um 340 þúsund heimili og vinnustaðir eru án rafmagns eftir að vonskuveður gekk yfir níu ríki í Bandaríkjunum. Að minnsta kosti 54 hafa látist í veðrinu. Baptistakirkja í McAlester í Oklahoma-ríki er yfirfull af fólki sem hírist undir teppum en flestir íbúar þessa 18 þúsund manna bæjar hafa verið án rafmagns í fjóra sólarhringa.

Á vef CNN kemur fram að áfram er gert ráð fyrir að kalt verði í veðri þar til á morgun eða föstudag í Oklahoma og fleiri ríkjum Bandaríkjanna.

Í bænum Buffalo í Mossouri-ríki er nánast allt lokað, verslanir, bensínstöðvar og veitingastaðir þannig að íbúar geta ekki útvegað sér helstu nauðsynjar. Íbúi í Buffalo sagði í samtali við CNN að á þeim fimmtíu árum sem hann hafi búið í bænum hafi hann aldrei upplifað annan eins veðurham. Ekkert rafmagn hefur verið á bænum frá því á laugardag og á sunnudag tæmdust vatnstankar bæjarins.

Í Kaliforníu er talið að þrír fjórðu hlutar sítrusávaxtauppskeru hafi eyðilagst í kuldanum. Hefur Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, óskað eftir stuðningi alríkisstjórnarinnar við neyðaraðstoð. Önnur ávaxta- og grænmetisrækt í Kaliforníu hefur ekki farið varhluta af skemmdunum vegna veðursins.

Frá Washington-ríki
Frá Washington-ríki AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert