Bush: Aftaka Saddams leit út eins og „hefndardráp"

George W. Bush.
George W. Bush. Reuters

George W. Bush, Bandaríkjaforseti, sagði í sjónvarpsviðtali í dag að aftaka Saddams Husseins hafi litið út eins og „hefndardráp" og hefði gert mönnum erfiðara fyrir, að binda enda á ofbeldisverkin í Írak. Bush sagði að aftakan hefði aukið á efasemdir um að Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, væri starfi sínu vaxinn og að írösk stjórnvöld ættu eftir að þroskast talsvert.

Bush sagði í viðtali við PBS sjónvarpsstöðina, að hann hefði verið ánægður með að réttarhöldin yfir Saddam og nokkrum samverkamönnum hans en tveir þeirra hafa einnig verið teknir af lífi. Hins vegar hefði íraska ríkisstjórnin farið klaufalega að við aftöku Saddams.

„Þegar kom að því að taka hann af lífi leit það út eins og hefndardráp. Og þetta jók efasemdir Bandaríkjamanna og íbúa í öðrum löndum," sagði Bush.

Hann sagði að aftakan hefði aukið á efasemdir um að al-Maliki vildi í raun bæla niður ofbeldisverkin og um það hvort hin svonefnda þjóðstjórn í Írak tæki skyldur sínar alvarlega.

Bush sagði hins vegar, að með aftöku Saddams hefði lokið hræðilegum kafla í sögu Íraks og því væri hún mikilvæg. Hún gæfi einnig þjóðstjórninni tækifæri til að horfa fram á veginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert