Rússneska þingið gagnrýndi Eistnesku stjórnina harðlega í dag fyrir áætlanir um að taka niður styttu í höfuðborginni, Tallin. Styttan er frá 1947 og heiðrar minningu hermanna í Rauða hernum sem hröktu Nasista úr landinu 1944. Duman, rússneska þingið samþykkti ályktun um að mótmæla niðurrifinu með 407 atkvæðum gegn engu.
Taldi Duman að aðgerðir sem þessar bæru vott um ný-nasisma og hefndarhug í Eistlandi sem var áður hluti af Sovétríkjunum. Eistlendingar hafa í hyggju að fjarlægja nokkrar slíkar styttur frá Sovét-tímabilinu en utanríkisráðherra Rússlands hefur sagt það vera „guðlast” en í Eistlandi býr ennþá töluvert stór minnihlutahópur sem talar rússnesku og Rússar telja að verði fyrir barðinu á útlendingahatri heimamanna.