Leyniþjónusta Pakistans hýsir leiðtoga Talibana

Mullah Omar, leiðtogi Talibana sem ekkert hefur sést til síðan 2001 dvelur í borginni Quetta í Pakistan þar sem pakistanska leyniþjónustan (ISI) heldur verndarhendi yfir honum. Þessar upplýsingar koma frá hátt settum Talibana, Muhammad Hanif sem afganska leyniþjónustan handsamaði á mánudaginn.

Myndbandi með yfirheyrslunni hefur verið dreift til fjölmiðla og þar má heyra Hanif renna stoðum undir þá kenningu að Mullah Omar leynist í Pakistan en forseti Afganistan hélt þessu fram í fyrra.

Samkvæmt fréttavef BBC sagði Hanif að fyrrum yfirmaður ISI, Hamid Gul styðji Talibana og hafi gert allar götur frá 1989 er hersveitir Sovétmanna yfirgáfu Afganistan.

Innanríkisráðherra Pakistans, Aftab Khan Sherpao sagði í viðtali við AP fréttastofuna að getgátur um að Mullah Omar væri í Quetta væru úr lofti gripnar og að Omar byggi ekki í Pakistan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka