Bandaríski blaðamaðurinn John F. Burns, sem starfar hjá dagblaðinu New York Times hefur greint frá því sem fyrir augu hans bar er honum var ásamt nokkrum öðrum blaðamönnum boðið að horfa á myndband af aftökum tveggja samstarfsmanna Saddams Husseins, fyrrum Íraksforseta, síðastliðinn mánudag. „Það lítur út fyrir að íröskum embættismönnum sem lögðu svo mikla áherslu á að rétt væri staðið að málum að þessu sinni, hafi bara mistekist það,” segir hann og vísar þar til þess að höfuð annars mannsins rifnaði frá kroppnum við aftökuna. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
„Þetta er bara staðfesting á því, sem þegar liggur fyrir, að þegar hlutirnir fara illa í Írak þá fara þeir mjög illa,” segir Burns sem hefur áralanga reynslu af því að flytja fréttir frá Írak. Þá segir hann að Barzan Ibrahim al-Tikriti, hálfbróðir Saddams sem var afhöfðaður, hafa verið hengdur á undan Awad Hamed al-Bandar og að seinni aftakan hafi gengið snurðulaust fyrir sig.
Svo virðist hins vegar sem embættismenn hafi klúðrað útreikningum á því hversu langt bandið ætti að vera miðað við þyngd Hassans. Þetta hafi leitt til þess að bandið hafi verið of langt og höggið sem kom á háls hans svo mikið að höfuðið hafi rifnað frá búknum.
Áður höfðu vitni greint frá því að mennirnir hafi virst skelfingu lostnir og að þeir hafi beiðið böðla sína vægðar og Guð um fyrirgefningu á glæpum sínum.