Sumir brandarar virka en aðrir ekki. Franski forsetaframbjóðandinn Segolene Royal hefur vikið einum af talsmönnum sínum úr starfi tímabundið vegna brandara sem hann sagði um sambýlismann hennar og barnsföður, leiðtoga Sósíalistaflokksins, François Hollande. Talsmaðurinn sagði brandarann hafa verið mistúlkaðan.
Talsmaðurinn, sem var gestur í sjónvarpsþætti í gærkvöldi, var beðinn um að nefna einn galla í fari Royal. Arnaud Montebourg svaraði af bragði: „Sambýlismaður hennar.“
Þegar ummælin vöktu undrun í stað hláturs annarra viðstaddra sagði Montebourg: „Ég hélt að þetta myndi koma ykkur til að hlæja. Þetta var brandari.“
Þingmaðurinn sagði að hann hefði beðið Royal og Hollande afsökunar í dag. Þá sögðu aðstoðarmenn hennar í dag að Royal hefði vikið Montebourg úr starfi talsmanns hennar næsta mánuðinn.
Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðandi íhaldsmanna og helsti andstæðingur Royal, gat ekki leynt kæti sinni yfir þessum misheppnaða brandara. „Guði sé lof að hann sé talsmaður hennar!“ sagði Sarkozy.
Mikið hefur verið ritað og rætt um það hvernig Hollande og Royal, sem kynntust þegar þau voru námsmenn, muni hátta sínu einkalífi og opinbera lífi verði hún kjörin til embættis forseta.
Samband þeirra komst nýlega í sviðsljósið þegar hin sjálfstæða Royal sagði að hún liti ekki á það sem svo að hún væri bundin tillögum Hollandes, þá sérstaklega hvað varðar skattahækkanir.
Þingkona íhaldsmanna, Nadine Morano, sem einnig var gestur í sjónvarpssalnum þar sem brandarinn misheppnaði var mæltur af vörum fram, sagði að hrollur hefði farið um fólk þegar Montebourg lét ummælin falla.
Þegar hún var spurð sömu spurningar, þ.e. hver væri helsti veikleiki Sarkozyz, svaraði hún: „Súkkulaði.“