Einstæðir foreldrar ættleiddra kínverskra barna í Bandaríkjunum hafa lýst yfir óánægju með þá ákvörðun kínverskra yfirvalda að hætta að veita heimildir fyrir ættleiðingum einstaklinga á kínverskum börnum. Segja þeir að svo virðist sem Kínverjar vilji með þessu breyta ímynd sinni á alþjóðavettvangi og sýna fram á að þeir séu ekki lengur fátæk þjóð sem geti ekki séð fyrir börnum sínum. Þetta kemur fram á fréttavef Yahoo.
„Hvort sem ég vildi ættleiða eitt barn til eða kæmist að þeirri niðurstöðu að ég gæti það ekki þá vildi ég fá að taka þá ákvörðun sjálf en ekki láta þá gera það,” segir Meg Tolan, einstæður lögfræðingur í New York sem á fyrir þrjár ættleiddar kínverskar dætur.
Nancy Haddad, einstæð móðir fjögurra barna, tveggja frá Kína og tveggja frá Rússlandi er hins vegar á öðru máli. „Þeir vilja vernda börnin. Þeir vilja gera það sem er best fyrir börnin og það er ekki okkar að gagnrýna það,” segir hún. „Ég reiðist ekki yfir þessum nýju reglum en það hryggir mig að hugsa um fólk sem á eftir að segja; ég get ekki staðið í þessu og hætta við því það er svo mikið af umkomulausum börnum annars staðar í heiminum.”
Þá bendir hún á að aukning hafi orðið á ættleiðingum innan Kína og að dregið hafi úr því að kínverskum börnum sé rænt frá foreldrum sínum og að hvoru tveggja hljóti að vera af því góða.
55.446 kínversk börn hafa verið ættleidd til Bandaríkjanna frá Kína á síðasta 21 ári og býr um fimmti hluti þeirra í New York, Connecticut og New Jersey. Þá hafa flest erlend börn sem hafa verið ættleidd til Bandaríkjanna á síðustu sex árum komið frá Kína en fjögur af hverjum fimm börnum sem hafa verið ættleidd frá Kína á síðasta áratug hafa farið til Bandaríkjanna.
Kínverjar settu nýjar reglur um ættleiðingar barna úr landi í desember á síðasta ári og er tilgangurinn sagður sá að stytta þann tíma sem hjón þurfi að bíða eftir að fá kínversk börn til ættleiðingar en sá tími hefur verið að lengjast að undanförnu þar sem fækkun hefur orðið á þeim börnum sem gefin eru til ættleiðingar í Kína. 600 til 800 kínversk börn munu nú vera gefin til ættleiðingar í hverjum mánuði en fyrir átján mánuðum var fjöldi þeirra um 1.000.
Kínverskum yfirvöldum munu nú berast um 2.000 umsóknir um börn til ættleiðingar á mánuði, þar af um 1,200 frá Bandaríkjunum.