Mona Sahlin væntanlegur leiðtogi sænskra jafnaðarmanna

Mona Sahlin í höfuðstöðvum sænska Jafnaðarmannaflokksins í dag.
Mona Sahlin í höfuðstöðvum sænska Jafnaðarmannaflokksins í dag. AP

Mona Sahlin verður væntanlega tilnefnd í formannsembætti sænska Jafnaðarmannaflokksins í dag og tekur hún við af Göran Persson, sem verið hefur leiðtogi flokksins í tíu ár. Sahlin verður fyrsta konan sem tekur við leiðtogahlutverkinu hjá jafnaðarmönnum, sem setið hafa að völdum í Svíþjóð sex af undanförnum sjö áratugum.

Sænskir fjölmiðlar hafa í dag eftir ónafngreindum heimildamönnum að Sahlin hafi fallist á að taka við leiðtogahlutverkinu, og verði formlega tilnefnd í dag. Á flokksþingi í mars verði hún síðan formlega kjörin leiðtogi, en engir aðrir muni bjóða sig fram og því verði kjörið aðeins formsatriði.

Sahlin er þrautreynd í stjórnmálum og hefur setið í tólf ár sem ráðherra. En hún hefur einnig verið umdeild. Talið var líklegt að hún tæki við leiðtogahlutverkinu af Ingvari Carlssyni eftir að hafa verið aðstoðarforsætisráðherra hans 1994-95, en þá kom í ljós að hún hafði keypt ýmislegt handa sjálfri sér og tekið út þúsundir evra á krítarkort sem skráð var á ríkisstjórnina.

Þetta olli miklu, almennu hneyksli og neyddist Sahlin til að hverfa úr pólitík um tíma. Sahlin sagðist hafa litið á úttektina sem lán og greiddi það aftur úr eigin vasa. Hún var ekki ákærð.

Hún varð aftur ráðherra í ríkisstjórn Perssons 1998.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert