Faðir og stjúpmóðir 13 ára gamallar stúlku í Wisconsin í Bandaríkjunum hafa verið handtekin eftir að stúlkan sagði lögreglu að hún hefði verið lokuð inni í herbergi sínu í nærri tvö ár og aðeins fengið að koma út til að borða, fara á salerni í eina mínútu í senn og vinna húsverk.
Fólkið hefur verið ákært fyrir að valda barni tjóni. Það á yfir höfði sér háa sekt og 12 ára fangelsi. AP fréttastofan hefur eftir saksóknara, að aðstæðurnar, sem barninu hafi verið boðnar, hafi verið hræðilegar.
Stúlkan var fyrst lokuð inni í herbergi sínu í febrúar 2005 til að refsa henni fyrir agabrot. Síðan var hún látin dúsa þar inni 22 tíma á sólarhring en slagbrandur var fyrir dyrunum og viðvörunarkerfi í glugganum.
Öryggismyndavél var komið fyrir inni í herberginu og eini húsbúnaðurinn var dýna með ábreiðu og kodda og tómt skatthólf.
Málið komst upp þegar foreldrarnir komu með stúlkuna á sjúkrahús 12. janúar sl. og sögðu hana heyra raddir.
Við húsleit kom í ljós, að mikið var af leikföngum og raftækjum sem þrjú önnur börn í húsinu höfðu aðgang að.