Sænska fyrirtækið Pirate Bay íhugar nú að falla frá áformum sínum um að kaupa stál– og steypueyjuna Sealand sem liggur 12 mílum (19 km) úti fyrir strönd Bretlands en fyrirtækið hefur hafið fjársöfnun á Netinu til að fjármagna kaupin. Forsvarsmenn Pirate Bay höfðu hugsað sér að nota eyjuna til að skapa nútímasjóræningjum öruggt skjól þar sem þeir töldu að engin höfundarréttarlög giltu á eyjunni. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Þegar höfðu safnast 18.478 Bandaríkjadollarar til kaupanna á eyjunni en ólíklegt er að af þeim verði þar sem sérfræðingar hafa bent á að eyjan falli undir bresk lög jafnvel þótt núverandi eigandi hennar hafi lýst yfir sjálfstæði hennar.
„Sealand liggur 12 mílum úti fyrir strönd Bretlands og árið 1987 færði Bretland lögsögu sína út í 12 mílur. Þetta þýðir að bresk lög gilda á Sealand og það á einnig við um höfundarréttarlögin. Á þessu leikur enginn vafi," segir Robin Churchill, prófessor í alþjóðalögum við Dundee háskóla. „Þetta er alger vitleysa. Til að land geti verið sjálfstætt þarf það að hafa íbúa, starfandi stjórn og vera viðurkennd af öðrum þjóðum. Það er ekki til sú þjóð sem viðurkennir Sealand.”