Mahmoud Abbas, forseti Palestínu kemur til Damaskus í Sýrlandi í dag til viðræðna við stjórnvöld þar í landi og fulltrúa herskárra Palestínumanna. Tilgangur ferðarinnar er að reyna að binda enda á deilur Fatah, stjórnmálahreyfingar Abbas við Hamas-samtökin.
Abbas hittir meðal annars forsetann Bashar al-Asssad meðan á ferðinni stendur og er búist er við því að hann fundi einnig með Khaled Meshaal, leiðtoga Hamas, sem er í útlegð í Sýrlandi.
Assad og Abbas hafa ekki hist síðan árið 2005, en talið er víst að viðræður þeirra muni snúast um það hvernig megi leysa ágreining innan raða Palestínumanna.
Fatah og Hamas hafa reynt svo mánuðum skiptir að komast að samkomulagi um samstarfsstjórn flokkanna tveggja, til að stöðva viðskiptaþvinganir Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins sem til eru komnar vegna harðrar afstöðu ríkisstjórnar Hamas gegn Ísraelum.