Fundu styttu af Lenín á miðju Suðurskautslandsins

Rannsóknastöð á Suðurskautslandinu.
Rannsóknastöð á Suðurskautslandinu. Reuters

Hópur kanadískra og breskra landkönnuða komst á föstudaginn á landfræðilega miðju Suðurskautslandsins, og var þetta í fyrsta sinn sem menn fara þangað fótgangandi.

Hópurinn var sjö vikur á leiðinni í roki og nístandi kulda með 120 kílóa sleða í eftirdragi. Fór hópurinn 1.700 km leið inn að miðjunni, Óaðgengipólnum, það er að segja þeim punkti Suðurskautslandsins sem er lengst frá hafi í allar áttir.

Þetta kom fram á vefsíðu hópsins.

Óaðgengipóllinn er í 3.725 m hæð og þangað fóru menn fyrst 1958 er hópur sovéskra landkönnuða ók þangað á vélsleðum.

Leiðtogi bresk-kanadíska hópsins, Paul Landry, sagði það hafa komið verulega á óvart að í snjónum hafi komið í ljós brjóstmynd af Vladimír Lenín, sem sovétmennirnir hafi reist fyrir hálfri öld.

Miðja Suðurskautslandsins er um 870 km frá suðurpólnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert