Milljónir horfnar úr sjóðum Alþjóðaveðurstofnunarinnar

Milljónir svissneskra franka hafa horfið í fjársvikamáli sem tengist Alþjóðaveðurstofnuninni (WMO) að því er fram kemur í alþjóðlegri endurskoðunarskýrslu. Frá þessu greindu svissneskir fjölmiðlar í dag.

Maria Veiga, sem er embættismaður sem rannsakaði hneykslismálið frá 2003 til 2005 áður en hún var rekin af stofnuninni í nóvember, sagði í viðtali við dagblaðið Le Matin að hluti peninganna, sem nema rúmum fjórum milljónum franka, hafi farið í að kaup atkvæðakaup þjóða.

„Hluti af þeim 4,3 milljónum franka sem voru sviknir út voru ætlaðir að fjármagna kosningaherferðir fyrir framkvæmdastjórastöðuna,“ sagði Veiga í viðtali við dagblaðið.

WMO, sem hafa aðsetur sitt í Genf í Sviss, er sérfræðistofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þá nýtur hún virðingar og hefur ákveðna vigt þegar fjallað er um loftlagsmál á jörðinni.

Dagblaðið Le Temps sagði að í endurskoðunarskýrslunni sé að finna nöfn fulltrúa frá yfir 50 þróunarlöndum sem hafa fengið á milli 1.000 og 3.000 svissneska franka (á milli 56 - 168.000 kr.) hver svo hafa mætti áhrif á atkvæði þeirra.

Sá sem er talinn höfuðpaurinn í þessu hneykslismáli, sem stofnunin afhjúpaði fyrst í desember árið 2003, er súdanski embættismaðurinn Muhammad Hassan, en hann flýði land í nóvember 2003 eftir að hann var rekinn úr starfi og fékk ábendingu frá einhverjum innan WMO að búið væri að gefa út handtökutilskipun á hendur honum.

Fram kemur að Hassan, sem bar ábyrgð á þjálfun í upphafi þessa áratugar, hafi greint þáverandi framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Nígeríumanninum Godwin Obasi, frá sumum þeirra greiðslna sem hann hafði staðið að. Samkvæmt endurskoðunarskýrslunni er verið að rannsaka um tug starfsmanna sem eru sakaðir um vanrækslu og samráð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert