Forstjórar nokkurra bandarískra stórfyrirtækja hafa skrifað George W. Bush, Bandaríkjaforseta, bréf og hvetja forsetann til að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í Bandaríkjunum. Það er kominn tími til að stjórnmálaleiðtogar landsins taki af skarið," sagði Jim Rogers, forstjóri Duke Energy, á blaðamannafundi í gærkvöldi. Álfyrirtækið Alcoa er eitt fyrirtækjanna níu.
Bush mun fjalla um málið í stefnuræðu sinni í kvöld en að sögn Hvíta hússins mun forsetinn ekki boða, að teknar verði upp bindandi reglur um losun gróðurhúsalofttegunda. Til þessa hefur Bush hafnað slíkum reglum og Bandaríkjastjórn lýsti því yfir árið 2001 að hún myndi ekki staðfesta Kyoto-samkomulagið svonefnda um aðgerðir gegn losun gróðurhúsalofttegunda.
Níu bandarísk stórfyrirtæki hafa nú stofnað aðgerðahóp með það að markmiði að koma á bindandi reglum um losun kolefnislofttegunda og draga úr þeim um að minnsta kosti 60% fyrir árið 2050.
„Við getum og verðum að grípa þegar til aðgerða til að koma á fót samræmdum markaðsdrifnum aðgerðum til að vernda andrúmsloftið," segja forstjórarnir í bréfinu til Bush.
Fyrirtækin níu eru Duke Energy, Alcoa, BP America, DuPont, Caterpillar, General Electric, Lehman Brothers, FPL Group og PG and E.