Fyrirhugað bann við mismunun gegn samkynhneigðum pörum gæti orðið til þess að ættleiðingaþjónustum á vegum kaþólsku kirkjunnar í Englandi og Wales yrði lokað. Cormac Murphy-O'Connor, kardináli, segir að ættleiðingar samkynhneigðra stríði gegn reglum kirkjunnar og séu því óásættanlegar.
Dómsmálaráðherra Bretlands, Falconer lávarður, segir ólíklegt að ríkisstjórn Bretlands láti undan þrýstingi kirkjunnar.
„Við trúum því að það væri ósanngjarnt, ónauðsynlegt og óréttlát mismunun gagnvart kaþólikkum ef ríkið krefst þess að þeir vinni gegn eigin sannfæringu og kenningum kirkjunnar ef þeir vilja vinna með stjórnvöldum”.
Falconer segist ekki vilja að ættleiðingaþjónustur kaþólikka hætti störfum, en segir óhugsandi að veita einstökum hópum undanþágur. „Ef við ákveðum sem þjóðfélag að mismuna ekki fólki á þeim forsendum að það sé samkynhneigt, þá er ekki hægt að veita undanþágur á þeim reglum vegna trúar eða kynþáttar fólks”.