Enginn vafi leikur á því að loftslagsbreytinga af völdum manna hefur þegar orðið vart og munu áhrifin aukast mjög í framtíðinni. Þetta kemur fram í nýrri 1.600 síðna skýrslu Alþjóðlega vísindaráðsins um loftslagsbreytingar (IPCC) sem unnin var af rúmlega 600 vísindamönnum og yfirfarin af 600 sérfræðingum til viðbótar. Í skýrslunni er mikið magn nýrra upplýsinga sem unnið hefur verið úr og segir í henni gögnin sem sýni fram á þetta séu óyggjandi og augljós.
Fyrsti hluti skýrslunnar verður gefinn út í París í næstu viku, skýrslan verður gefin út í fjórum hlutum og útgáfunni dreift yfir árið, líkt og gert var þegar nefndin gaf út sína síðustu skýrslu árið 2001. 12 síðna úrdrætti verður dreift til þingmanna þann 2. febrúar nk.
„Gróðurhúsaáhrifanna gætir nú, það er augljóst”, segir Jerry Mahlman, virtur bandarískur vísindamaður sem hefur sérhæft sig í loftslagsmálum og er einn þeirra sem fenginn var til að fara yfir skýrsluna fyrir útgáfu. „Þegar litið er á hitastig jarðar, þarf ekki mikla umhugsun til að komast að niðurstöðu”.
Hitastig jarðar hefur hækkað um 0,7 gráður frá árinu 1901. Hlýjustu árin frá því að mælingar hófust voru árin 1998 og 2005, en árið 2006 var hlýjasta árið í sögu Bandaríkjanna.
Í öðrum hluta skýrslunnar, sem birtur verður í apríl verður sjónum beint að áhrifum sem gróðurhúsaáhrif hafa þegar haft á heilsu, dýrategundir og matvælaframleiðslu.
Í skýrslunni nú eru notast við fleiri og nákvæmari tölvuútreikninga en áður, nítján samtals, um breytingar á veðurfari og hækkandi sjávarmál.
Í skýrslunni sem gefin var út árið 2001 var því spáð að hitastig geti hækkað um 1,3 til 8,1 gráðu fram til ársins 2100, og að sjávarmál muni hækka um 10 – 89 sentimetra. Í væntanlegri skýrslu er búist við að mun nákvæmari tölur verði birtar, vegna þeirra upplýsinga sem safnað hefur verið, en að tölurnar muni ekki gefa meiri ástæðu til bjartsýni en árið 2001.