Ný tegund málaliða er stiginn fram á sjónarsviðið í Þýskalandi en þeir eru reiðubúnir að mótmæla fyrir aðra svo lengi sem upphæðin sé rétt. Þessir atvinnumótmælendur hafa hinsvegar neitað að mótmæla fyrir samtök nýnasista.
Fólkið er ungt, myndarlegt og reiðubúið að mótmæla fyrir rúmar 13.000 kr. Nú þegar hafa yfir 300 manns skráð sig og markaðssett á þýskri vefsíðu sem sérhæfir sig í leigustarfssemi.
Fólkið er á meðal bifreiða, DVD-mynda, skrifstofuhúsgagna og frístundaheimila.
Í augum sumra einstaklinga eru þessir leiguliðar dæmi um það hve lífið er orðið sálarlaust. Aðrir segja hinsvegar að þetta blási nýju lífi í gamla málstaði.
Lýsing fólksins á sjálfu sér minnir einna helst á það sem er að finna á stefnumótasíðum.
Ein tilkynning er af konu sem kallar sig Melanie. Henni fylgir svarthvít mynd auk þess sem nákvæmar upplýsingar um gallabuxna- og skóstærð hennar. Þá kemur fram að hún sé reiðubúin að starfa fyrir mótmælendasamtök einversstaðar innan 10 km radíuss við Berlín. Sex klukkustunda mótmælavinna af hálfu Melanie mun kosta þá sem leigja hana 145 evrur, sem samsvarar rúmum 13.000 kr.
Talsmaður erento.com gat ekki sagt til um það hversu margir mótmælendur hafi verið bókaðir til starfa frá því þjónustan var sett á laggirnar fyrr í þessum mánuði, en hann gat þó sagt að ekki hafi verið skortur á eftirspurn.
Ólíklegt þykir að þau samtök sem kaupi þjónustu af síðum sem þessum vilji að það sé vitað, en þau vilja helst að mótmælendur þeirra séu í raun og veru harðir stuðningsmenn þess málsstaðar sem samtökin eru að berjast fyrir. En þýskir fjölmiðlar greindu nýverið frá því að mótmælendur í fjöldagöngu í Munchen hafi verið leigðir til verksins þar sem hörðustu fyglismenn þess málsstaðar sem verið var að berjast fyrir gætu ekki staðið klukkustundum saman í mótmælagöngu fyrir aldurs sakir. Erento.com leggur áherslu á það að enginn mótmælandi verði að bjóða sig fram til að styðja hvaða málstað sem er, og því er talið að margir þeirra styðji í raun og veru þann málsstað sem honum eða henni eru greidd laun fyrir að sýna stuðning í verki.
En sú staðreynd að fólki sé greitt fyrir að mótmæla hefur valdið uppnámi hjá mörgum fréttaskýrendum í Þýskalandi, þá sérstaklega þeim sem tóku þátt í mótmælunum árið 1968.
„Þetta virðist staðfesta þá almennu skoðun að lýðræðið sé til sölu,“ skrifaði einn.