Belgíska lögreglan rannsakar nú lát fallhlífarstökkvara sem morð, en hann lést þegar hann stökk úr flugvél. Lögreglan segir að svo virðist sem um ástríðuglæp hafi verið að ræða þar sem fallhlífastökkvarinn, Els Van Doren hafði átt í rifrildi við elskhuga sinn.
Van Doren, sem var 37 ára gömul, féll um 4.000 metra til jarðar og lést í nóvember sl. þegar bæði aðal- og varafallhlífarnar opnuðust ekki.
Lögreglan telur að einhver hafi átt við fallhlífarnar og því er málið nú rannsakað sem morð.
Annar fallhlífarstökkvari, Els Clottemans, sem er 22 ára, var tekin til yfirheyrslu í síðustu viku, en lögregla grunar hana um verknaðinn. Engin ákæra hefur þó enn verið gefin út.
Lögreglan telur að Clottemans og Van Doren, sem voru í sama fallhlífarstökksfélagi og vinkonur, hafi átt í sambandi við sama manninn, Hollending að nafni Marcel.
Samkvæmt fjölmiðlum í Belgíu myrti Clottemans Van Doren í afbrýðiskasti eftir að hún komst að því að Van Doren hafði haldið fram hjá með kærasta hennar.
„Ég tel að við getum kallað þetta ástríðuglæp,“ sagði saksóknarinn Michel Zegers hjá skrifstofu saksóknarans.