Mikill skortur er á matvælum í Zimbabwe og er hætta talin á að hungursneyð vofi yfir stórum hluta íbúa landsins. Er gjaldeyrisskortur stjórnvalda í Zimbabwe helsta skýringin á matvælaskortinum þar sem ekki hefur verið hægt að flytja inn nema brot af þeim matvælum sem skortur er á í landinu.
Áætlanir stjórnvalda gera ráð fyrir að flytja inn 565 þúsund tonn af korni sem er um það bil 60% af því magni sem talið er nauðsynlegt að flytja inn. En þrátt fyrir þessar fyrirætlanir stjórnvalda efast margir um að þær náist.
Zimbabwe hefur glímt við efnahagskreppu í rúm sex ár og er verðbólgan í landinu ein sú mesta í heiminum eða yfir 1200%. Jafnframt er yfir helmingur vinnufærra manna án atvinnu.