Kanadísk yfirvöld greiða manni sem var vísað úr landi bætur

Maher Arar heldur því fram að hann hafi verið pyntaður …
Maher Arar heldur því fram að hann hafi verið pyntaður í Sýrlandi. Reuters

Kanadísk yfirvöld hafa beðið mann, sem var framseldur af bandarískum yfirvöldum til Sýrlands, opinberlegrar afsökunar, en í Sýrlandi var maðurinn fangelsaður og að því er talið er jafnframt pyntaður.

Maher Arar var handtekinn í Bandaríkjunum þegar hann sneri aftur heim til Kanada eftir að hafa verið á ferðalagi í Túnis. Hann ber tvöfalt ríkisfang, þ.e. bæði sýrlenskt og kanadískt.

Arar var hreinsaður af öllum ásökunum um að tengjast hryðjuverkastarfssemi í rannsókn sem kanadíska ríkisstjórnin lét framkvæma. Sýrlensk yfirvöld hafa neitað því að maðurinn hafi verið pyntaður.

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hefur greint frá því að Arar muni fá 10,5 milljónir Bandaríkjadala í skaðabætur vegna málsins. Þá hefur Harper hvatt bandarísk stjórnvöld um að taka hann af lista yfir meinta hryðjuverkamenn.

„Fyrir hönd ríkisstjórnar Kanada þá vil ég biðja þig afsökunar [...] og fjölskyldu þína vegna þess hlutverks sem ríkisstjórnin hefur mögulega leikið í þessari hræðilegu þrekraun sem þið öll hafið mátt þola árin 2002 og 2003,“ sagði Harper.

Arar hefur hafið dómsmál vegna atburðarins og krefst 37 milljóna dala í skaðabætur.

Í kanadísku rannsókninni sem hreinsaði Arar af öllum ásökunum kemur fram að það sé líklegt að bandarísk yfirvöld hafi handtekið hann á upplýsingum sem þau fengu frá kanadískum yfirvöldum.

Hún styður jafnframt þær fullyrðingar Arars um að hann hafi verið pyntaður í Sýrlandi.

Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hefur beðið Arar opinberlegrar afsökunar á …
Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, hefur beðið Arar opinberlegrar afsökunar á mögulegri aðild ríkisstjórnar landsins að málinu. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert