Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins (NATO) samþykktu á fundi í Brussel í dag, að auka hernaðar- og efnahagsaðstoð við Afganistan. Bandaríkjamenn tilkynntu í gær, að þeir ætluðu að leggja aukið fé til uppbyggingar innviða og öryggismála í Afganistan og ætluðust til að önnur NATO-ríki gerðu slíkt hið sama en NATO sér um friðargæslu í Afganistan.
Fram kemur í tilkynningu frá íslenska utanríkisráðuneytinu, að Valgerður hafi á fundinum meðal annars greint frá þeim fyrirætlunum íslenskra stjórnvalda, að styðja enn frekar við endurreisnarstarf og uppbyggingu í Afganistan. Valgerður sat m.a. fund með ýmsum samstarfsríkjum bandalagsins og fulltrúum alþjóðastofnanna, auk utanríkisráðherra Afganistan, og hádegisverðarfund með utanríkisráðherrum Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, greindi frá því í gær, að Bandaríkjastjórn áformaði að verja 8,6 milljörðum dala til að þjálfa afganska hermenn og lögreglumenn og búa þá vopnum. Þá yrði 2 milljörðum dala varið til að styrkja innviði landsins.
Bandaríkjamenn eru með 24 þúsund hermenn í Afganistan, fleiri en öll hin NATO-ríkin hafa þar til samans. Um helmingur bandarísku hermannanna eru við friðargæslu á vegum NATO en afgangurinn er í sérverkefnum við að leita að hryðjuverkamönnum.