Sífellt fleiri bandarískir skólar kynjaskipta bekkjum

Íslenskir krakkar leika sér saman á skólalóðinni
Íslenskir krakkar leika sér saman á skólalóðinni mbl.is/Ásdís

Sífellt fleiri ríkisreknir skólar í Bandaríkjunum velja að aðskilja stúlkur og drengi annað hvort í sumum bekkjum eða öllum skólanum eftir að slíkt var heimilað með alríkislöggjöf á síðasta ári. Talsmenn aðskilnaðar segja hann draga úr truflunum í kennslustofunni, auðvelda nemendum að einbeita sér að náminu og veita þeim tækifæri til að kynna sér hluti sem þeir myndu að öðrum kosti ekki ráðast í. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Gagnrýnendur aðskilnaðar segja hins vegar að finna megi aðrar leiðir til að bæta skólastarf og að aðskilnaðurinn stuðli að óeðlilegri fjarlægð milli kynjanna. Þá segja þeir um tilraunastarfsemi að ræða og að engin vitneskja liggi fyrir um áhrif aðskilnaðarins á stöðu kynjanna með tilliti til jafnréttismála á vinnumarkaði og á öðrum sviðum vestræns nútímasamfélags.

A.m.k. 253 ríkisreknir skólar í Bandaríkjunum bjóða nú upp á kynjaskipta bekki og í 51 skóla eru allir bekkir kynjaskiptir en árið 1995 var einungis boðið upp á kynjaskipta bekki í þremur ríkisreknum skólum í landinu.

Í Wisconsin er nú t.d. boðið upp á kynjaskipta bekki í þremur skólum og í einum þeirra verður kosið um það í næstu viku hvort kynjaskipta eigi öllum bekkjum skólans. Níu slíkir skólar eru þegar starfræktir í New York-borg auk þess sem slíkir skólar eru í Chicago, Dallas, Seattle og Washington, D.C. Þá hafa verið kynntar áætlanir um að skipta bekkjum í skólum í Miami, Atlanta og Cleveland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert