Verður Simon Peres loks forseti Ísraels?

Simon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss …
Simon Peres, aðstoðarforsætisráðherra Ísraels, á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í Sviss í gær. AP

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, hefur gefið starfsfólki sínu fyrirmæli um að undirbúna lagafrumvarp um breytingar á lögum um kjör forseta landsins en með breytingunum er Olmert sagður vilja auka möguleika Simonar Peres, aðstoðarforsætisráðherra síns, á að verða næsti forseti landsins. Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Allsherjarnefnd ísraelska þingsins veitti í gær Moshe Katsav, forseta Ísraels, þriggja mánaða leyfi frá störfum í kjölfar þess að Menachem Mazuz, ríkissaksóknari landsins, ákvað að ákæra hann fyrir nauðgun og misbeitingu valds. Almennt er þó talið að Katsav muni segja formlega af sér embætti innan þess tíma.

Samkvæmt núgildandi lögum kjósa þingmenn á ísraelska þinginu forseta í leynilegri kosningu en Olmert og Peres eru báðir sagðir telja að það muni koma Peres til góða verði atkvæðagreiðslan opinber. Peres tapaði fyrir Katsav í leynilegu forsetakjöri en áður en kosningin fór fram mun meirihluti þingmanna hafa heitið Peres stuðningi sínum. Þegar á hólminn var komið greiddu nokkrir þeirra hins vegar atkvæði gegn honum, í skjóli nafnleyndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert