Bandaríkin hafa bannað útflutning á ýmsum munaðarvörum, eins og t.d. iPod-spilurum, eðalvínum og sportbílum, til Norður-Kóreu vegna kjarnorkutilrauna stjórnvalda landsins á liðnu ári.
Eftir tilraunir Norður-Kóreu með kjarnorkuvopn 9. október sl. samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun um að Norður-Kórea yrði beitt viðskiptaþvingunum varðandi munaðarvörur en lét aðildarríkjunum eftir að skilgreina vörurnar. Richard Mills, talsmaður viðskiptaskrifstofu Bandaríkjanna, segir að aðgerðum Bandaríkjamanna sé sérstaklega beint gegn valdastéttinni í Norður-Kóreu og hafi ekki áhrif á fátækan almenninginn, enda nái útflutningsbannið ekki til t.d. matvara og lyfja.
Á bannlistanum eru t.d. koníak, vatnaskíði, skartgripir og tískuföt, en samfara útflutningsbanninu gera Bandaríkjamenn sér vonir um að viðræður við Norður-Kóreumenn vegna viðskiptaþvingana verði teknar upp að nýju á næstunni.