13% Bandaríkjamanna hafa aldrei heyrt um hlýnun andrúmsloftsins

Þrettán af hundraði Bandaríkjamanna hafa aldrei heyrt um hlýnun andrúmsloftsins, þrátt fyrir að Bandaríkjamenn séu þjóða duglegastir við losun gróðurhúsalofttegunda, samkvæmt könnun sem gerð var meðal íbúa 46 ríkja í heiminum.

Það var fyrirtækið ACNielsen sem gerði könnunina og þátt í henni tóku rúmlega 25.000 netnotendur. Í ljós kom að 57% þeirra töldu hlýnun andrúmsloftsins „mjög alvarlegt vandamál“, og önnur 34% töldu það „alvarlegt vandamál“.

Mestar áhyggjur af málinu höfðu íbúar í Suður- og Mið-Ameríku, en bandarískir ríkisborgarar höfðu minnstar áhyggjur af því, en aðeins 42% bandarískra þátttakenda í könnuninni sögðust telja hlýnunina „mjög alvarlegt vandamál“.

Um fjórðungur allrar losunar gróðurhúsalofttegunda kemur frá Bandaríkjunum, en næst á eftir þeim koma Kína, Rússland og Indland.

Þrettán prósent bandarískra þátttakenda í könnuninni sögðust aldrei hafa heyrt eða lesið neitt um hlýnun andrúmsloftsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka