Breskur lávarður var í dag handtekinn í annað sinn í tengslum við rannsókn á meintri sölu á sætum í lávarðadeildinni. Levy lávarður, sem handtekinn var í dag, er náinn vinur og ráðgjafi Tonys Blairs forsætisráðherra, en alls hafa fjórir verið handteknir vegna rannsóknar málsins.
Rannsóknin hófst snemma á síðasta ári og snýst um það hvort Verkamannaflokkurinn og fleiri stjórnmálaflokkar hafi boðið föl sæti í lávarðadeild þingsins, en lávarðar eru ekki kjörnir heldur tilnefndir, í skiptum fyrir fjárhagslegan stuðning. Allir fjórir sem handteknir hafa verið tengjast Verkamannaflokknum.
Fréttaskýrendur segja að verði einhver hinna handteknu ákærður fyrir yfirhylmingu kunni Blair að verða að láta af embætti fyrr en hann hefur áætlað, sem talið er að verði í júlí.