George W. Bush Bandaríkjaforseti gagnrýndi í dag himinhá laun og kaupauka yfirmanna stórfyrirtækja og sagði að umbuna ætti mönnum í samræmi við árangur þeirra í starfi og hversu miklum arði þeir skiluðu hluthöfum. Bush sagði þetta í ræðu í New York, þar sem hann heimsótti Kauphöllina á Wall Street.
Bush ítrekaði góðar horfur í efnahagsmálum í landinu, en í dag greindi ríkisstjórn landsins frá því að hagvöxtur væri meiri en ráð hefði verið gert fyrir, eða 3,5% á seinasta ársfjórðungi í fyrra. Bush sagðist skilja reiði Bandaríkjamanna yfir sögum af ofurlaunum og bónusgreiðslum til yfirmanna fyrirtækja. „Launagreiðslur og kaupaukar yfirmanna ættu að byggja á árangri þeirra í starfi hvað varðar umbætur á fyrirtækjunum og góð störf í þágu hluthafa,“ segir í yfirlýsingu sem forsetaembættið sendi frá sér í dag, áður en Bush hélt ræðuna.
Svo virðist sem þessi yfirlýsing sé gefin í tilefni af lagafrumvarpi þingmanns repúblikana, Barney Frank, um að hluthafar verði að samþykkja allar áætlanir um kaupauka og aðra umbun til yfirmanna fyrirtækja.