Þingið í Venesúela kom saman undir berum himni á torgi í miðborg Caracas í dag og samþykkti að veita forseta landsins, Hugo Chavez, völd til að stjórna með tilskipunum næsta hálfa annað árið, á meðan hann reynir að gera að veruleika þjóðnýtingaráformin sem eru lykillinn að vinstribyltingunni sem hann vill gera.
Þetta gerir Chavez kleift að auka ríkisafskipti í efnahagslífinu og öðrum málefnum, t.d. varnar- og öryggismálum. Allir fulltrúar á þinginu eru hliðhollir forsetanum þar sem stjórnarandstöðuflokkar sniðgengu þingkosningarnar 2005. Til að sýna samstöðu sína komu þingmenn saman á torginu í Caracas.
Fyrirsagnir í síðdegisútgáfum dagblaða sem eru andvíg Chavez voru einkar neikvæðar. Blaðið Tal Cual sagði: „Heil Hugo“, og líkti samþykkt þingsins við þau völd sem Adolf Hitler fékk í Þýskalandi á fjórða áratugnum.