Frönsk stjórnvöld kynntu í vikunni um fyrirætlanir um að eyða sjö milljónum evra í að auka vitund manna um svefntruflanir. Einn af hverjum þremur Frökkum þáist af slæmum eða ónógum svefni, en meðal þess sem franski heilbrigðisráðherrann vill láta athuga er hvort leyfa eigi Frökkum að blunda í vinnunni.
„Hvers vegna ekki að blunda í vinnunni? Það á ekki að vera bannað að ræða um þetta”, sagði Xavier Bertrand, heilbrigðisráðherra Frakka í gær. Kallaði hann eftir frekari rannsóknum og kvaðst munu beita sér fyrir því að Frakkar fengju sér lúr á vinnutíma ef sannaðist að þeir gerðu gagn. Þá sagði ráðherrann að allt að 30% umferðarslysa á þjóðvegum mætti rekja til syfju.
Stjórnvöld munu í tilefni herferðarinnar senda almenningi bréf þar sem kostir góðs nætursvefns eru taldir upp. Þá hefur könnun verið sett upp á vefsíðu heilbrigðisráðuneytisins þar sem fólki er gert kleift að meta það hve góðan svefn það fær.