Sérstakur ríkisendurskoðandi, sem á að hafa eftirlit með fjármunum sem Bandaríkjamenn verja til uppbyggingar í Írak, segir að milljónum dala hafi verið sóað og spilling sé landlæg í Írak. Hann nefnir sem dæmi, að rándýr æfingastöð hafi verið byggð í Bagdad fyrir lögreglunema en aldrei notuð. Í stöðinni er m.a. fullbúin keppnissundlaug.
George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur farið fram á að Bandaríkjaþing samþykki 1,2 milljarða dala fjárveitingu, sem nota á til uppbyggingar í Írak.
Breska ríkisútvarpið, BBC, segir að í ársfjórðungslegri skýrslu Stuart Bowen, sérstaks ríkisendurskoðanda vegna fjárveitinga til Íraks, komi fram að öryggi í Írak fari stöðugt minnkandi og það tefji uppbyggingu og ógni raunar öllu uppbyggingarverkefninu.
Meðal annars kemur fram, að mikil spilling sé í Írak og uppbygging innviða landsins sé hættuleg vegna árása uppreisnarmanna. Þá lýsir endurskoðandinn miklum áhyggjum af vinnubrögðum stjórnvalda í Írak varðandi fjárumsýslu.
Segir í skýrslunni, að milljarðar dala, sem ætlað var til uppbyggingarverkefna til ársloka 2006, hafi enn ekki verið notaðir.
Í skýrslunni eru einnig nefnd dæmi um sóun fjármuna í Írak. M.a. hafi bandaríska utanríkisráðuneytið greitt verktakanum DynCorp International 43,8 milljónir dala, jafnvirði 3 milljarða króna, til að byggja búðir fyrir lögreglunema í Bagdad. Þessar búðir hafi aldrei verið notaðar. Íraska innanríkisráðuneytið hafi krafist ýmiss búnaðar í búðunum án heimildar Bandaríkjastjórnar. Meðal annars hafi verið byggðir 20 íbúðir fyrir tigna gesti og sundlaug í fullri stærð.
Þá kemur fram í skýrslunni, að bandarískir embættismenn hafi varið 36,4 milljónum dala til kaupa á brynvörðum ökutækjum, skotheldum vestum og fjarskiptabúnaði, sem ekki sé hægt að gjaldfæra vegna þess að greiðslukvittanir og önnur skjöl vanti.
Alls hefur Bandaríkjastjórn varið 21 milljarði dala til uppbyggingar í Írak.