Frakkar stigu fyrsta skrefið í átt að algeru reykingabanni á opinberum vettvangi í dag er bann við reykingum á vinnustöðum, í skólum og sjúkrahúsum tók gildi. Skiptar skoðanir eru um reykingabannið en skýringin kann að hluta til að vera sú að næstum einn af hverjum þremur fullorðnum Frökkum reykir.
Fyrirtækjum verður að vísu heimilt að láta útbúa sérstök herbergi, þar sem komið yrði fyrir öflugum viftum til að soga reykinn á brott, en ekki þykir líklegt að mörg muni ráðast í slíkar framkvæmdir, enda um kostnaðarsaman búnað að ræða.
Um næstu áramót verður síðan sett bann við reykingum á frönskum krám og kaffihúsum. Sumir efast um að franska stjórnin muni þora að stíga skrefið til fulls 1. janúar nk. Hefðin fyrir reykingum sé slík í Frakklandi. Margir muni í öllu falli halda sínu striki og reykja þar sem þeim sýnist, hvað sem líður þeirri staðreynd, að menn munu eiga yfir höfði sér sekt upp á 68 evrur kveiki þeir í þar sem ekki má reykja.
Nýlegar rannsóknir benda raunar til að reykingamönnum fjölgi í Frakklandi, einkum í yngstu aldurshópum. Um 32% fullorðinna, 15–75 ára, reykja en hlutfallið er næstum 50% í aldurshópnum 18–25 ára.