Tilnefna Al Gore til friðarverðlauna Nóbels

Al Gore.
Al Gore. Reuters

Baráttan gegn loftslagsbreytingum er friðarbarátta, segja tveir norskir þingmenn sem tilnefnt hafa Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, til friðarverðlauna Nóbels, ásamt Sheilu Watt-Cloutier, leiðtoga Inúíta í Kanada.

Þingmennirnir tveir, Børge Brende og Heidi Sørensen, leggja til að Gore og Watt-Cloutier hljóti verðlaunin fyrir viðleitni þeirra til að vekja athygli stjórnmálamanna í heiminum á hættunum sem fylgi loftslagsbreytingum.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

„Þetta er án efa einhver mikilvægasta viðleitnin til að koma í veg fyrir átök. Loftslagsbreytingar geta leitt til gífurlegs flóttamannastraums, meiri en nokkurntíma hefur sést í sögunni. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er mjög mikilvægt framlag til friðar í heiminum,“ sagði Sørensen við Aftenposten.

Watt-Cloutier hefur um árabil verið einn helsti leiðtogi Heimskautaráðstefnu inúíta. Á undanförnum árum hefur hún vakið athygli á þeirri öru hlýnun sem er að verða á norðurskautssvæðinu, og lagt áherslu á að útskýra fyrir þjóðarleiðtogum að norðurskautssvæðið sé „loftvogin“ sem sýni loftslagsbreytingar.

Sheila Watt-Cloutier.
Sheila Watt-Cloutier. mbl.is/KGA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert