Baráttan gegn loftslagsbreytingum er friðarbarátta, segja tveir norskir þingmenn sem tilnefnt hafa Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna, til friðarverðlauna Nóbels, ásamt Sheilu Watt-Cloutier, leiðtoga Inúíta í Kanada.
Þingmennirnir tveir, Børge Brende og Heidi Sørensen, leggja til að Gore og Watt-Cloutier hljóti verðlaunin fyrir viðleitni þeirra til að vekja athygli stjórnmálamanna í heiminum á hættunum sem fylgi loftslagsbreytingum.
Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.
„Þetta er án efa einhver mikilvægasta viðleitnin til að koma í veg fyrir átök. Loftslagsbreytingar geta leitt til gífurlegs flóttamannastraums, meiri en nokkurntíma hefur sést í sögunni. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er mjög mikilvægt framlag til friðar í heiminum,“ sagði Sørensen við Aftenposten.
Watt-Cloutier hefur um árabil verið einn helsti leiðtogi Heimskautaráðstefnu inúíta. Á undanförnum árum hefur hún vakið athygli á þeirri öru hlýnun sem er að verða á norðurskautssvæðinu, og lagt áherslu á að útskýra fyrir þjóðarleiðtogum að norðurskautssvæðið sé „loftvogin“ sem sýni loftslagsbreytingar.