Bandaríkjamenn fagna skýrslu um loftslagbreytingar

Mengunarský yfir París
Mengunarský yfir París AP

Sharon Hays, yfirmaður sendinefndar Bandaríkjamanna til ráðstefnu Alþjóðlega vísindaráðsins um loftslagsbreytingar (IPCC) sem haldin er í París, segir að skýrsla ráðsins, sem út kemur í dag, sé þýðingarmikil og verðmæt fyrir löggjafa.

Hays, sem er aðstoðarforstjóri vísinda- og tækniskrifstofu Hvíta hússins sagðist fagna hörðu orðalagi skýrslunnar, en þar segir að hlýnun jarðar undanfarna áratugi sé „mjög líklega” til komin af mannavöldum.

Samkvæmt skilgreiningu IPCC er þar með talið að líkurnar á að loftslagsbreytingar séu til komnar vegna gróðurhúsaáhrifa af völdum manna séu meiri en 90%. Í skýrslunni er spáð hækkun sjávarmáls, bráðnun íss og áframhaldandi hækkun hitastigs jarðar, um 1,8 – 4 gráður fram til ársins 2100.

Skýrslan sem nú kemur út er fyrsti hluti skýrslu sem kemur út í fjórum hlutum á þessu ári. Hún mun vera sama eðlis og skýrsla sem IPCC gaf út árið 2001, en mun nákvæmari og ítarlegri þar sem stuðst er við mun meiri gögn og fleiri tölvulíkön. Um 600 vísindamenn unnu að gerð skýrslunnar, en 600 til viðbótar lásu hana yfir.

Hays sagði þó ekkert um það hvort skýrslan muni verða til þess að George W. Bush, Bandaríkjaforseti breyti stefnu sinni varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, eða hvernig það yrði gert.

Skýrsla IPCC er skjal þar sem vísindamenn lýsa því sem þeir telja að sé að gerast og spá fyrir um það sem þeir telja að muni gerast. Engar tillögur að aðgerðum koma fram í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert