Ein mannskæðasta árás sem gerð hefur verið í Bagdad frá því Íraksstríðið hófst árið 2003 átti sér stað í dag þegar sjálfsvígssprengjumaður í vöruflutningabifreið sprengdi sjálfan sig á markaði í borginni. Alls létust 105 manns og 225 særðust.
Sprengingin varð í Sadriya-útimarkaðinum, þar sem fólk kemur til þess að versla sér kjöt og grænmeti, olli gríðarlegri eyðileggingu. Hún átti sér stað degi eftir að bandarísk leyniþjónustuskýrsla greindi frá því að kalla mætti hluta af stríðsátökum í Írak borgarastyrjöld.
Öll sjúkrahús borgarinnar fylltust í kjölfar árásinnar. Mikil glundroði skapaðist á Ibn al-Nafis sjúkrahúsinu í Karrada, en gangar sjúkrahússin fylltust fljótt af særðum einstaklingum og ættingjum og vinum þeirra sem hrópuðu á hjálp.
George W. Bush hyggst senda 21.500 fleiri hermenn til Íraks, en meirihluti þeirra mun þó halda til höfuðborgarinnar. Þetta er liður í því að efla öryggi í landinu og margir líta svo á að þetta sé síðasta tilraunin til þess að koma í veg fyrir að algjört borgarastríð brjótist út milli sjíta, sem eru í meirihluta í landinu, og súnníta, sem eitt sinn héldu um stjórnartaumana í landinu.