Fuglaflensa hefur greinst í alifuglabúi í Suffolk á Englandi, en frá þessu greindi umhverfis-, matvæla og dreifbýlisstofnun landsins. Kallað var eftir aðstoð sérfræðinga í dýrasjúkdómum á vegum stjórnvalda sl. fimmtudag og frumrannsóknir benda til þess að fuglarnir hafi drepist úr H5 afbrigði fuglaflensunnar.
Unnið er að frekari rannsóknum og búið er að grípa til varúðunarráðstafana sem eiga að stöðva umferð fugla til og frá umræddu alifuglabúi.
Samkvæmt Press Association hafa um það bil 1.000 kalkúnar drepist í búinu.
Villiálft fannst dauð í Skotlandi í mars í fyrra sem var smituð af H5N1 afbrigði fuglaflensunnar, en það afbrigði getur dregið mannfólk til dauða. Talið er að álftin hafi smitast annarsstaðar og drepist á hafi úti og síðan skolað á skoskar strendur.
H5N1 veiran hefur smitað 270 manns um allan heim og orðið 164 að bana frá árinu 2003. Flestir hafa látist í Asíu. Þá hafa yfir 200 milljónir fugla drepist af völdum sjúkdómsins eða verið fargað svo koma megi í veg fyrir útbreiðslu hans.