Níu látnir og um 200 þúsund heimilislausir í flóðum í Jakarta

Frá Jakarta
Frá Jakarta Reuters

Að minnsta kosti níu hafa týnt lífi í flóðunum og 190 þúsund hafa misst heimili sín í flóðum í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Hefur rignt þar á fjórða sólarhring og hafa ár flætt yfir bakka sína með þeim afleiðingum að stór hluti borgarinnar er umlukinn vatni. Hafa stjórnvöld lýst yfir neyðarástandi í borginni og segja það vera á hæsta stigi.

Ekki hafa komið meiri flóð í Jakarta í fimm ár. Vara veðurfræðingar við því að það haldi áfram að rigna, jafnvel í viku í viðbót.

Hluti Jakarta er án rafmagns, vatns og síma auk þess sem samgöngur eru lamaðar þangað öðruvísi en á bátum.

Margir þeirra sem hafa misst heimili sín hafast við í neyðarskýlum, moskum og kirkjum á meðan aðrir neita að yfirgefa hús sín þrátt fyrir að þau séu á floti, að því er fram kemur í frétt á vef BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert