Christer Pettersson, sem á sínum tíma var ákærður fyrir að myrða Olof Palme, forsætisráðherra Svíþjóðar, árið 1986, viðurkenndi í bréfi, sem hann skrifaði til unnustu sinnar að hafa framið morðið. Pettersson, sem lést fyrir tveimur árum, var fundinn sekur í undirrétti en sýknaður af áfrýjunardómstóli þar sem sannanir þóttu ekki nægar.
Sænska dagblaðið Aftonblade hefur fengið bréfasafn konu, sem átti í ástarsambandi við Pettersson. Í einu bréfanna viðurkennir Pettersson að hafa framið morðið:
„Það var ég, sem skaut Olof Palme," segir í bréfinu.
Christer Pettersson var í miklu sambandi við Lennart Håård, blaðamann á Aftonbladet og áformaði að eiga með honum fund skömmu fyrir dauða sinn. Af þeim fundi varð ekki en í staðinn bað Pettersson unnustu sína að upplýsa blaðamanninn um leyndarmál sitt. Það ákvað konan að gera um helgina og afhenti blaðinu bréfin.