Skopmyndadeilan hefur haft jákvæð áhrif á samskipti Dana við múslíma

Skopmyndadeilan náði hámarki í fyrra en reiðir múslímar brenndu danska …
Skopmyndadeilan náði hámarki í fyrra en reiðir múslímar brenndu danska fánann víða. AP

Rúmu ári eftir að til harðra mótmæla kom víða um heim vegna skopmynda sem voru birtar af Múhameð spámanni segja danskir múslímar að deilan hafi að vissu leyti leitt til góðs. Þeir segja samræður við aðra Dani hafa orðið betri í kjölfarið, þar sem þeir skilji íslamstrú betur.

„Við tölum um vandamálin sem eru til staðar milli múslíma og Dana á þann máta sem við höfum aldrei gert áður,“ segir Yildiz Akdogan, talskona lýðræðislegra múslíma sem eru samtök sem hófsamir múslímar stofnuðu í kjölfar deilnanna.

„Umræðan er á breiðari grundvelli og fjölþættari. Fleiri einstaklingar og fólk af ólíku sauðahúsi taka þátt og umræðan er mun skynsamlegri og blæbrigðin eru fleiri.“

Danska dagblaðið Jótlandspósturinn birti 12 skopmyndir af Múhameð spámanni í blaðinu í september árið 2005. Ein af myndunum var af spámanninum með túrban á höfðinu sem í var sprengja. Forsvarsmenn dagblaðsins sögðu að þeir hefðu birt myndirnar til varnar tjáningarfrelsinu.

Mótmælaalda reið yfir Mið-Austurlönd og víðar í byrjun árs 2006 og fyrir um ári síðan náðu þau hámarki.

Abu Hassan, sem er trúarleiðtogi í mosku í Óðinsvéum í Danmörku, segist í fyrsta hafa móðgast yfir myndbirtingunum, en nú segist hann vera ánægður með þær sökum þess að deilan veitti honum tækifæri að fræða Dani um Múhameð spámann.

„Við höfum átt í mun jákvæðari samskiptum við Dani,“ segir hann. „Þeir vita núna miklu meira um Kóraninn og um Múhameð spámann og ég tel að það sé afar jákvætt fyrir okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert